Reglur mötuneytis

Reglur Mötuneytis 

 1.

Mötuneytisfélagar skulu ganga vel um mat, salarkynni og áhöld mötuneytis.

2.
Skila skal ílátum og borðbúnaði í matsal að lokinni máltíð. Stranglega er bannað að fara með mat, matarílát eða borðbúnað á herbergi heimavistar nema til þeirra sem veikir eru. Ekki er heimilt að taka með sér gesti sem ekki greiða fyrir mat. Starfsfólki mötuneytisins er óheimilt að lána fyrir mat. Sé mötuneytisfélagi fjarverandi fleiri en 5 daga samfellt vegna ferða á vegum skóla, veikinda eða annarra viðurkenndra ástæðna skal endurgreiða honum hluta fæðiskostnaðar fyrir þá daga sem hann er fjarverandi en launahluti kostnaðarins fæst ekki endurgreiddur.

3.
Mötuneytisfélögum ber að koma á auglýstum tíma í mat.

4.
Mötuneytið tekur að sér að sjá íbúum heimavistar fyrir fullnægjandi mötuneytisaðstöðu og viðunandi þvottaþjónustu í samræmi við 2. gr. í þjónustusamningi milli stjórnar rekstrarfélagsins LUNDAR og menntamálaráðuneytisins sem undirritaður var 17. desember 2001.

5.
Mötuneytið er sjálfseignarstofnun sem selur fæði á kostnaðarverði samkvæmt nánari reglum um rekstur og skipulag mötuneytis, sem mötuneytisráð setur.

6.
Stjórn Mötuneytis er í höndum mötuneytisráðs. Í mötuneytisráði sitja allir sjö meðlimir heimavistarráðs, kjörnir af íbúum heimavistarinnar, allir til eins árs. Þá sitja í mötuneytisráði bryti og skólameistari MA, sem er oddviti ráðsins, sbr. 40. gr. laga nr 80/1996 um framhaldsskóla. Allir fulltrúar í ráðinu hafa jafnan atkvæðisrétt. Mötuneytisráð skal gæta hagsmuna mötuneytisins og stuðla að hagkvæmum rekstri þess. Ráðið heldur fundi eigi sjaldnar en einu sinni á önn. Skólameistari MA boðar til funda með a.m.k. þriggja daga fyrirvara og stýrir þeim. Halda skal aukafund í mötuneytisráði óski fulltrúar í ráðinu eftir því og skal skólameistari boða til slíks fundar með einnar viku fyrirvara.

7.
Skólameistari Menntaskólans á Akureyri ræður bryta að höfðu samráði við skólanefnd. Mötuneytisráð felur bryta daglega stjórn og rekstur mötuneytis. Ábyrgð á rekstri Mötuneytisins er í höndum mötuneytisráðs og bryta í samræmi við ákvæði laga um fjármál og ábyrgð og samkvæmt ákvæðum í ráðningarsamningi bryta.

8.
Mötuneytisráð leggur rekstraráætlun fyrir hvert skólaár fyrir stjórn LUNDAR og skólanefndir skólanna beggja til umsagnar. Áætlunin skal liggja fyrir a.m.k. 1. maí. Í henni komi fram meginstefna í fæðissölu mötuneytisins og kostnaðarverð fyrir hvern fæðisflokk sem eru átta talsins: (1) fullt fæði sjö daga, (2) fullt fæði fimm daga, (3) morgunmatur og hádegismatur fimm daga, (4) morgunmatur og kvöldmatur sjö daga, (5), morgunmatur og kvöldmatur fimm daga, (6) hádegismatur og kvöldmatur fimm daga, (7) hádegismatur fimm daga og (8) stakar máltíðir.

9.
Hafa skal eðlilegt samræmi milli verðlagningar fæðisflokkanna þar sem jafn hluti launakostnaðar kemur á hvern fæðisflokk þannig að hlutfallslega minnstur launakostnaður kemur á fullt fæði sjö daga, enda ætti það að vera keppikefli skólanna og stjórnar LUNDAR að nemendur borði jafnaðarlega hollt og gott og ódýrt fæði og viðskipti við mötuneytið verði sem mest.

10.
Íbúar skulu vera í fæði sjö daga eða fimm, þeir sem jafnaðarlega fara heim til sín um helgar, og kaupa a.m.k. tvær máltíðir í mötuneytinu á dag: (1) morgunmat og hádegismat, (2) morgunmat og kvöldmat eða (3) hádegismat og kvöldmat. Eingöngu er síðdegiskaffi fyrir íbúa heimavistar.

11.
Almennan mötuneytisfund skal halda að hausti. Skal oddviti ráðsins þá skýra frá rekstri mötuneytisins en áætlun um kostnað skal birt á heimasíðu MA fyrir 10. maí. Mötuneytisfundi skal boða með þriggja daga fyrirvara með auglýsingu í matsal og telst hann löglegur ef löglega er til hans boðað. Aukafund mötuneytisins skal halda ef fimmtungur mötuneytisfélaga óskar þess skriflega við mötuneytisráð.

12.
Ef mötuneytisfélagi hættir í mötuneyti ber honum að greiða fullt verð út þann mánuð sem hann hættir og launahluta af mötuneytisgjaldi það sem eftir er annar en hráefniskostnaður mötuneytisgjaldsins er fellt niður og endurgreitt ef greitt hefur verið fyrirfram. 

Akureyri 25. nóv  2008