Viðbragðsáætlun gegn einelti og öðru ofbeldi á Heimavist MA og VMA

Íbúum og starfsfólki á Heimavist MA og VMA ber að eiga góð og heilbrigð samskipti sem birtist í virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Ofbeldi, einelti, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni og kynbundið ofbeldi er ekki liðið á Heimavist MA og VMA. Mikilvægt er að allir séu meðvitaðir um að einelti getur sprottið upp og að hver og einn sé ábyrgur fyrir því að tilkynna slíkt umsvifalaust til starfsmanns heimavistar, hvort sem að viðkomandi sé þolandi eða verði vitni að því. Öllum tilkynningum er tekið alvarlega, rannsakað og komið í réttan farveg í samráði við þolanda.

Skilgreiningar:
Einelti eða annað ofbeldi er skilgreint út frá upplifun þolanda. Heimavist MA og VMA byggir viðbragðsáætlun og skilgreiningar á reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi.

Einelti:
Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

Kynbundin áreitni:
Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

Kynferðisleg áreitni:
Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðg­andi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

Ofbeldi: Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handa­hófs­kennda sviptingu frelsis.

Dæmi um birtingarmyndir:

  • Félagslegt einelti t.d. útilokun, baktal, meiðandi sögusögnum komið af stað.
  • Andlegt einelti t.d. stríðni, niðrandi athugasemdir og/eða hótanir, skriflegar og/eða munnlegar s.s. í tölvupósti eða öðrum skriflegum sendingum.
  • Líkamlegt einelti t.d. hrinda, líkamsmeiðingar og annað ofbeldi.
  • Kynferðislegt einelti t.d. kynferðisleg áreitni, bæði líkamleg og andleg.
  • Efnislegt einelti t.d. skemmdir á eigum eins og fatnaði.
  • Rafrænt einelti t.d. á spjallsíðum og í spjallforritum.

 

Viðbragðsáætlun:
Tilkynning um einelti eða annað ofbeldi  sem berst til starfsmanns heimavistar, frá þolanda, vitni eða frá öðrum, er komið til framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjóri/þjónustustjóri afla upplýsinga með viðtölum hjá þolanda, geranda, vitnum og öðrum sem kunna að vita um málið.  Foreldrar ólögráða þolanda og geranda/-enda eru upplýst um málið auk skólameistara viðkomandi skóla. Upplýsingar um málið er skráð.   Þolanda veittur stuðningur og frekari sérfræðiaðstoð eftir þörfum í samráði við þolanda og forráðamenn ef um ólögráða íbúa er að ræða.  Máli geranda-/gerenda komið í ákveðinn farveg með utanaðkomandi fagaðila, s.s. skólasálfræðingi.  Að öðru leyti ráðast viðbrögð af alvarleika og umfangi málsins en ævinlega er leitað lausna í hverju máli.