Heimavistarráð

Heimavistarráð

  1. Ráðið kallast Heimavistarráð Heimavistar MA og VMA.
  2. Heimavistarráð er fyrst og fremst hagsmunaráð íbúa á Heimavist MA og VMA.
  3. Heimavistarráð fjallar um og gætir hagsmuna íbúa, gagnvart Lundi sem sér um og stendur að rekstri heimavistar.
  4. Heimavistarráð er skipað sjö heimavistarbúum, þremur fulltrúum úr röðum MA og þremur úr röðum VMA. Sjöundi fulltrúinn er sá sem fær flest atkvæði í kosningu án tillits til skóla. Kosning fer fram á almennum heimavistarfundi í upphafi hvers skólaárs. Heimavistarráð skal vera framkvæmdastjóra heimavistar innan handar í hvers kyns málum er upp kunna að koma á heimavistinni og vera tengiliður við íbúa.
  5. Þar til nýtt Heimavistarráð hefur verið kjörið að hausti skulu tveir fulltrúar, tilnefndir af fráfarandi Heimavistarráði, gegna skyldum Heimavistarráðs. Skulu þeir tveir, ásamt framkvæmdastjóra heimavistar, tilnefna þriggja manna kjörstjórn sem undirbýr framboð og sér um kosningar til Heimavistarráðs. Kosningarétt og kjörgengi til Heimavistarráðs hafa allir íbúar heimavistar. Kosningar til Heimavistarráðs eru leynilegar.
  6. Þegar kosið er til Heimavistarráðs þarf að minnsta kosti einn fulltrúi að vera lögráða. Ef enginn þeirra 7 aðila sem efstir eru í kjöri til heimavistarráðs er lögráða, skulu 6 efstu í kjörinu taka sæti í heimavistarráði og sá lögráða aðili sem flest atkvæði fær.
  7. Heimavistarráð kýs sér forseta, varaforseta og ritara. Ritari heldur fundabók um fundi ráðsins og annast skjalavörslu. Varaforseti er aðstoðarmaður forseta og staðgengill hans. Forseti Heimavistarráðs stjórnar fundum þess, undirbýr mál er varða heimavistina og íbúa hennar og skiptir öðrum verkum með heimavistarráði eftir því sem hann telur þörf á, m.a. í mötuneytisráð. Heimavistarráð skipar einn fulltrúa í stjórn Lundar og færir hann stjórninni álit íbúa og Heimavistarráðs á einstökum málum sem hún hefur til meðferðar sé þess óskað. Fulltrúi Heimavistarráðs verður að vera orðinn lögráða til að gegna því embætti.
  8. Ef íbúum finnst brotið á sér í einhvers konar málum geta þeir leitað til Heimavistarráðs sem skoðar málið nánar og ræðir við framkvæmdastjóra heimavistar.
  9. Heimavistarráð stendur fyrir einum til tveimur viðburðum á önn.
  10. Rísi óánægja með störf Heimavistarráðs getur fimmtungur vistarbúa borið fram vantraust á ráðið. Skal vantrauststillagan tekin fyrir á almennum fundi heimavistarbúa. Hljóti hún meirihluta atkvæða lætur heimavistarráð af störfum og nýtt ráð er kosið. Þær kosningar eru í höndum þriggja manna kjörstjórnar sem fundurinn kýs. ­­­­­­­