Íbúi heimavistar Ungskáld Akureyrar

Aldís Embla Björnsdóttir íbúi á heimavist og nemandi í MA varð hlutskörpust í samkeppni akureyrskra ungskálda um skapandi skrif fyrir söguna Einræðisherrann. Eins og fram kemur í Vikudegi þá standa Amtsbókasafnið á Akureyri, Akureyrarstofa, Ungmenna-Húsið, Háskólinn á Akureyri, MA og VMA með stuðningi Menningarráðs Eyþings að samkeppninnni.
Umsögn dómnefndar:
Einræðisherra eftir Aldísi Emblu Björnsdóttur
Einræðisherra er forvitnileg og vel stíluð smásaga - eða örsaga. Sjónarhornið er skemmtilegt og sögumaður óvenjulegur - enda ekki oft sem smábörn á fyrsta ári láta móðann mása. En merkilegt nokk er þessi ungi sögumaður trúverðugur. Það kannast margir við þetta eigingjarna, stjórnsama eða hreinlega freka barn sem þarna fær rödd. Hnyttinn endirinn varpar hins vegar nýju ljósi á krílið - og sýnir að hér er á ferð lunkinn höfundur.

Starfsfólk heimavistar óskar Aldísi Emblu til hamingju með verðlaunin.