Nemendur hafðir fyrir rangri sök

Í fréttum að undanförnu hefur verið haft hátt um að menntaskólanemar á leið til Akureyrar með rútu, þar sem þeir fóru út við Heimavist MA og VMA, hafi kúkað í aftursætið á rútunni. Að sjálfsögðu vekur fréttaburður af þessu tagi athygli og hundruð nemenda í báðum þessum skólum auk þeirra hundraða sem búa á Heimavist hafa að sjálfsögðu verið bendluð við athæfið. Fjallað er um þetta sem nýjung, enda hafi sjóaður rútubílstjóri aldrei kynnst þvílíku á ferðum sínum.

Rannsókn hefur nú leitt í ljós að þeir nemendur úr Menntaskólanum á Akureyri og Verkmenntaskólanum á Akureyri sem voru farþegar með rútunni í umrætt sinn eiga engan, nákvæmlega engan þátt í því sem þarna er lýst. Hvorugur skólanna né Heimavist þeirra tengjast þessum atburði á einn eða neinn hátt.

Blaðamennskan að baki þessari frétt er vissulega ámælis- og vítaverð, en það hlýtur að teljast ábyrgðarhluti af hálfu rútufyrirtækisins að bera út fregn sem þessa og varpa þar með sök á skólana báða, nemendur þeirra og heimili þeirra, Heimavistina. Því væri eðlilegt að telja að fyrirtækið Bílar og fólk ehf., sem ekur á milli Akureyrar og Reykjavíkur undir merkjum Sterna, skuldi skólunum, Heimavistinni og nemendunum öllum afsökun og bætur fyrir þennan áburð og komi fram með jafnskýrum hætti til að bera fregnina til baka og henni var komið á flug.