Mikilvæg skilaboð frá þvottahúsi!

Íbúar eru vinsamlegast beðnir um að athuga hvort þeir séu með þvott hjá sér sem þeir eiga ekki, og koma með hann niður í þvottahús fyrir jólafrí. Það bráðvantar eina hvíta skyrtu og sokkapoka með hvítum sokkum í og er sá sem gæti verið með hann beðinn um vinsamlegast að skila honum strax niður í þvottahús!! 

Jólahlaðborð

Jólahlaðborð fyrir íbúa heimavistar verður haldið 1. desember. Snyrtilegur klæðnaður er skylda Smellið á lesa meira til að sjá matseðil

Nemendur hafðir fyrir rangri sök

Í fréttum að undanförnu hefur verið haft hátt um að menntaskólanemar á leið til Akureyrar með rútu, þar sem þeir fóru út við Heimavist MA og VMA, hafi kúkað í aftursætið á rútunni. Að sjálfsögðu vekur fréttaburður af þessu tagi athygli og hundruð nemenda í báðum þessum skólum auk þeirra hundraða sem búa á Heimavist hafa að sjálfsögðu verið bendluð við athæfið. Fjallað er um þetta sem nýjung, enda hafi sjóaður rútubílstjóri aldrei kynnst þvílíku á ferðum sínum. Rannsókn hefur nú leitt í ljós að þeir nemendur úr Menntaskólanum á Akureyri og Verkmenntaskólanum á Akureyri sem voru farþegar með rútunni í umrætt sinn eiga engan, nákvæmlega engan þátt í því sem þarna er lýst. Hvorugur skólanna né Heimavist þeirra tengjast þessum atburði á einn eða neinn hátt. Blaðamennskan að baki þessari frétt er vissulega ámælis- og vítaverð, en það hlýtur að teljast ábyrgðarhluti af hálfu rútufyrirtækisins að bera út fregn sem þessa og varpa þar með sök á skólana báða, nemendur þeirra og heimili þeirra, Heimavistina. Því væri eðlilegt að telja að fyrirtækið Bílar og fólk ehf., sem ekur á milli Akureyrar og Reykjavíkur undir merkjum Sterna, skuldi skólunum, Heimavistinni og nemendunum öllum afsökun og bætur fyrir þennan áburð og komi fram með jafnskýrum hætti til að bera fregnina til baka og henni var komið á flug.

Vídeókvöld í setustofunni

Miðvikudaginn 17. nóvember klukkan 21:00 verður vídeókvöld í setustofunni. Allir að mæta :-) 

Keppni í umgengni milli kynja

Hefst á morgun þriðjudaginn 9. nóvember í mötuneytinu  Megi betra kynið vinna! 

Mikilvæg skilaboð frá þvottahús gellunum

Það er mikið af óskilamunum niðri í þvottahúsi (þó aðallega eyrnatappar fyrir MP3 spilara). Þið sem eigið þetta eru vinsamlegast beðin um að kíkja niður og sækja það. Síðan skal bent á að fötin sem eru á hillunum frammi eru óskilaföt sem er BANNAÐ að taka nema að þið eigið þau! Takið þið föt sem ekki eru ykkar telst það þjófnaður!

Nýtt heimavistarráð tekið til starfa

Nýtt heimavistarráð er tekið til starfa. Í heimavistarráði 2010-2011 eru: Jóhannes Ingi Torfasson - Forseti Sigríður Jónsdóttir - Varaforseti Ellen Sif Skúladóttir - Ritari Kristín Halla Eiríksdóttir - Fjármálafulltrúi Jónas Þór Karlsson - Vefstjóri Freydís Rósa Vignisdóttir - Andlegur leiðtogi Eygló Yngvadóttir - Lukkudýr Við munum kynna okkur og málstað okkar betur í næstu viku. Góðar tillögur eru vel þegnar. Netfangið okkar er heimavistarrad@heimavist.is  

Framboð í heimavistarráð!

Kæru íbúar! Hafið þið áhuga á að starfa í heimavistarráði?   Óskað er eftir framboðum í heimavistarráð fyrir veturinn 2010-2011 !  Skila skal framboðum í kjörkassann í lobbýinu fyrir klukkan 22:00 fimmtudaginn 23.september.

Enginn titill

Heimvistin verður opin til innritunar fyrir nemendur MA. laugardaginn 11. september frá kl. 14 til kl 18 sunnudaginn 12. september frá kl. 12 til kl. 20. mánudaginn 13. september frá kl. 09 til kl. 22.   Til að auðvelda og flýta fyrir innskráningu viljum við minna ykkur á að hafa með leigusamninga og fylgibréf útfyllt og undirrituð.      1)  Fyrir hvert eintak af leigusamningi þarf að fylla út: - Hvaða greiðslufyrirkomulag þú velur en í boði eru tveir kostir. - Undirrita samninginn. Sért þú ekki lögráða (18 ára) þarf forráðamaður þinn að undirrita samninginn. - Fá tvo vitundarvotta til að undirrita húsaleigusamninginn. - Tilgreina hvert endurgreiða skuli tryggingargjaldið í lok leigutíma.    2)  Annað eintakið af reglum um aga og umgengni þarf einnig að undirrita af íbúa og forráðamanni. Hitt eintakið er ætlað foreldrum og forráðamönnum.    3)  Annað eintakið af bréfi húsbónda.  Hitt eintakið er ætlað foreldrum og forráðamönnum. Öll eintökin af húsaleigusamningi, annað eintakið af reglum um aga og umgengni og annað eintakið af bréfi húsbónda skal afhendast við komu á vistina gegn afhendingu lykla að húsnæðinu. Lundur mun sjá um að þinglýsa húsaleigusamningum.  Gerð og þinglýsing húsaleigusamnings og vottorð viðkomandi skóla um skólavist eru innifalin í staðfestingar- og skráningargjaldinu sem innheimt var í sumar. Lundur mun sjá um að senda þinglýstan húsaleigusamning og vottorð um skólavist til foreldra/forráðamanna.  Þau gögn eru notuð við umsókn um húsaleigubætur í sveitarfélaginu við lögheimili nemandans. Mikilvægt er að sækja um húsaleigubætur sem fyrst svo þær verði greiddar fyrir alla mánuði samningsins.    

Fyrstu dagarnir á heimavistinni

Ágæti íbúi á heimavist Lundar. Þegar nemendur Verkmenntaskólans flytja inn á vistina í næstu viku þurfa þeir að búa fyrst um sinn í öðrum herbergjum en þeir hafa fengið ráðastafað fyrir veturinn.  Ástæðan er sú að hótelrekstraraðilinn, sem starfrækir Hótel Eddu í húsakynnum Lundar yfir sumarið, verður með hluta af húsakynnum Lundar þegar íbúar VMA koma á vistina. Dagana 30. ágúst til 2. september munu íbúar VMA flytja sig um set í þau herbergi sem þeir hafa fengið úthlutað skv. húsaleigusamningi. Við komuna á vistina mun húsbóndi upplýsa íbúana hvar þeir muni búa fyrst um sinn. ALLIR ÍBÚAR VMA MUNU BÚA FRÍTT Á HEIMAVISTINNI FRAM TIL 1. SEPTEMBER J Þar sem búið verður þröngt fram til mánaðarmóta biðjum við þá íbúa sem geta, að geyma heima stærri hluti (ekki bráðnauðsynlega) þar til endanlegum herbergjum verður úthlutað.  Að sjálfsögðu getum við tekið í geymslu stærri hluti (og kassa) fyrir þá íbúa sem koma langt að og fara sjaldan heim. Við vonum að íbúar Lundar og aðstandendur þeirra sýni þessum aðstæðum skilning en rekstur sumarhótels í húsakynnum Lundar á stóran þátt í að gera Lundi unnt að fjármagna og reka heimavist á Akureyri fyrir 330 nemendur á myndarlegan og metnaðarfullan hátt. Mötuneytisþjónusta verður starfrækt í matsal vistarinnar frá fyrsta degi en matmálstímar verða kynntir sérstaklega þegar íbúarnir koma á vistina. Þvottaþjónusta fyrir íbúana verður einnig starfrækt á vistinni frá fyrsta degi.  Við viljum ítreka að allur þvottur þarf að vera vel merktur.